Sálfræðimeðferð fer yfirleitt fram í einstaklingsviðtölum en í sumum tilfellum er um para- eða hópmeðferð að ræða. Hver sem er getur leitað sér sálfræðimeðferðar og þarf ekki að vera með tilvísun frá lækni. Sumir sem leita sér sálfræðimeðferðar glíma við klínískt þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun eða önnur vandamál. Aðrir sem leita sér hjálpar geta verið að takast á við vægari einkenni þunglyndis eða kvíða, sjálfsmyndarvanda, tilfinningavanda, samskiptaörðugleika eða eru almennt að takast á við mótlæti í lífinu.

Það eru til ýmsar ólíkar nálganir innan sálfræðinnar og fer val á meðferðarnálgun eftir vandamálinu sem um ræðir og sérhæfingu sálfræðingsins. Sálfræðingur vísar einstaklingum áfram á aðra sálfræðinga ef hann telur að vandamálið sem um ræðir henti betur annarri sérhæfingu en þeirri sem hann býr yfir. Sú meðferðarnálgun sem er mest notuð á Íslandi og mest rannsökuð er hugræn atferlismeðferð. Við bjóðum upp á aðrar meðferðarnálganir hjá Sálfræðistofu Reykjavíkur. Þar á meðal eru núvitund, lausnamiðuð nálgun, samkenndarnálgun, jákvæð sálfræði og EMDR.